Harpa, tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð

Harpa, tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð Reykjavíkur var tekin í notkun í maí 2011. Mannvit gegndi veigamiklu hlutverki í verkfræðihönnun og byggingu Hörpunnar og var hluti af Portus hópnum sem átti verðlaunatillögu í hönnun hússins ásamt verkfræðistofunum Ramböll og Hnit. Henning Larsen Architects og Batteríið arkitektar teiknuðu húsið ásamt Ólafi Elíassyni listamanni. ÍAV voru al-verktakar hússins. Mannvit sá um skipulagningu og hönnun á öllum rafkerfum, gerð útboðsgagna, umsjón með útboðum og mat tilboða í samvinnu við Ramböll. Mannvit sá jafnframt um hönnun burðarvirkja, lagna, loftræstingar, rafkerfa og brunatækni ásamt Ramböll. Burðarvirki hússins eru flókin og vandasöm í hönnun sem gerð var í þrívídd. Þrívíddarhönnun í BIM (Building Information Modelling) hugbúnaði hefur rutt brautina í notkun upplýsingalíkana við mannvirkjagerð.  Harpa er fyrsta stóra verkefnið á landinu þar sem notað er upplýsingalíkan við alla verkfræðihönnun. 

 

Mjög miklar kröfur eru gerðar til hljóðvistar í húsinu. Meðal annars er tónlistarsalurinn skilgreindur sem N1 salur, en aðeins eru örfáir slíkir salir til í heiminum.  Allar loftræstibúnaður og pípulagnir eru einangraðar frá burðarvirki hússins með gorma- eða gúmmíupphengjum.  Flest tæknirýmin eru "box-í box" herbergi, þ.e. innan í rýminu er annað rými með veggjum, gólfi og lofti sem er aðskilið ytra rýminu með holrými eða neoprenpúðum.

 

Harpan er 28.000 fermetrar að stærð og 43 metra há. Botnplata hússins er um 8.000 fermetrar og í húsið fóru samtals um 2.500 tonn af burðarstáli og 4.000 tonn af bendistáli. Úr grunni hússins var mokað í burtu á annað hundrað þúsund rúmmetrum af jarðvegi og um sex milljónum tonna af sjó var dælt upp úr grunninum á meðan framkvæmdum stóð. Heildarloftmagn loftræstikerfa hússins er um 375.000 m3/h.

Mannvit sá um eftirfarandi í samvinnu við Rambøll:

  • Burðarvirkishönnun
  • Lagna- og loftræstikerfi
  • Skipulagningu og hönnun rafkerfa
  • Gerð útboðsgagna og mat tilboða
  • Brunatækni
  • Götur
  • Veitulagnir

Additional information:Project-example